Lífið

Íslendingur uppnefndur Eminem í orðastríði á Old Trafford

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birkir Snær lætur stuðningsmenn Liverpool heyra það á móti í orðastríði stuðningsmanna eftir leikinn.
Birkir Snær lætur stuðningsmenn Liverpool heyra það á móti í orðastríði stuðningsmanna eftir leikinn.

Birkir Snær Sigurðsson, leikmaður Grindavíkur í 4. deild og stuðningsmaður Manchester United í enska boltanum, varð fyrir aðkasti á léttum nótum um liðna helgi. Hans menn biðu lægri hlut gegn erkifjendunum í Liverpool, var í raun slátrað 5-0 á Old Trafford.

Birkir Snær deildi myndbandi á Twitter í gær sem tekið er á síma stuðningsmanns Liverpool eftir leikinn. Stuðningsmaður sigurliðsins var greinilega í hressara lagi eftir stórsigurinn á Rauðu djöflunum.

Stuðningsmenn Liverpool heyrast í myndbandinu syngja lag um lokaniðurstöðu leiksins, 5-0, þegar einn þeirra rekur augun í Birki Snæ. Lögreglumenn stóðu vörð á milli stuðningsmanna félaganna sem hafa eldað grátt silfur saman í langan tíma.

 Grindvíkingurinn minnti stuðningsmennina greinilega á þekktan bandarískan rappara.

„Eminem! Eminem! Sjáðu Eminem! Slim Shady!“ heyrist í hlæjandi stuðningsmanni Liverpool. Allt gert til að skjóta á stuðningsmenn andstæðingsins. Birkir stóð í hópi stuðningsmanna Manchester United sem sungu vel valda söngva á móti. 

Hálf milljón manna hafa horft á myndbandið á Twitter og Birkir Snær deildi því sem fyrr segir og skrifaði: „Not my proudest moment“ sem má snara yfir á íslensku: „Ekki mitt besta augnablik.“

Birkir Snær segir í stuttu samtali við Fréttablaðið að þetta hafi verið létt grín hjá stuðningsmönnum en slíkt þekkist vel á leikjum í ensku úrvalsdeildinni og víðar.

Birkir deilir ljósu hári Eminem en köll stuðningsmanns Liverpool lifðu ekki lengi því lögregla skarst í leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×