Enski boltinn

Segir að önnur lið vonist eftir sigri United svo Solskjær haldi starfinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær er sagður valtur í starfi.
Ole Gunnar Solskjær er sagður valtur í starfi. EPA-EFE/Peter Powell

Sparkspekingurinn og fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Paul Merson segir að stuðningsmenn annarra liða en Manchester United vonist eftir sigri Rauðu djöflanna gegn Tottenham á morgun svo Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær haldi starfi sínu lengur sem knattspyrnustjóri liðsins.

Fyrsti deildarleikur United eftir vægast sagt niðurlægjandi 5-0 tap gegn erkifjendunum í Liverpool um seinustu helgi er útileikur gegn Tottenham Hotspur á morgun.

Bæði lið hafa verið í basli í upphafi tímabils og tap gegn Tottenham myndi skapa enn meiri óvissu um framtíð Solskjær sem knattspyrnustjóri United.

Merson segir að stuðningsmenn liðanna sem eru líklegust til að berjast við United um Evrópusæti muni vonast eftir sigri Manchester-liðsins. Nema þá kannski stuðningsmenn Tottenham.

„Það skrýtna er að stuðningsmenn annarra liða munu vilja að United vinni svo að Solkjær haldi starfinu,“ skrifaði Merson í pistli sínum.

„Þú þarft bara að horfa á Chelsea síðan Thomas Tuchel tók við til að sjá hvaða áhrif nýr þjálfari getur haft. Þeir unnu Meistaradeildina og eru nú líklegir til að vinna deildina.“

„Ég er ekki viss um að leikurinn á morgun sé skyldusigur fyrir United, en ef hann er það, og klúbburinn heldur í þjálfara sem hangir á bláþræði fyrir hvern einasta leik, er það þá rétta leiðin?“

„Við vitum samt alveg hvað gerist. United vinnur Tottenham og það verður allt í góðu í viku í viðbót. Síðan gætu þeir náð í úrslit á móti Atalanta, en svo tapa þeir líklega gegn City.“

https://twitter.com/SkySportsPL/status/1454074288588275714




Fleiri fréttir

Sjá meira


×