Enski boltinn

Öruggt hjá West Ham á Villa Park

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
West Ham skoraði fjögur mörk í dag.
West Ham skoraði fjögur mörk í dag. Jan Kruger/Getty Images

West Ham United vann góðan 4-1 útisigur á Aston Villa í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Bakvörðurinn Benjamin Johnson kom West Ham yfir strax á 7. mínútu leiksins og setti það tóninn fyrir leikinn. 

Ollie Watkins jafnaði reyndar metin fyrir heimamenn á 34. mínútu en Declan Rice kom gestunum yfir á nýjan leik aðeins fjórum mínútum síðar með skoti lengst utan af velli, boltinn í stöng og inn.

Síðari hálfleikur hófst ekki byrlega fyrir heimamenn en Ezri Konsa fékk beint rautt spjald fyrir að brjóta af sér sem aftasti maður. Upphaflega átti hann að fá gult spjald en eftir að atvikið var skoðað breytti dómarinn dómnum og rak Konsa af velli.

Það tók gestina töluverðan tíma að nýta liðsmuninn en Pablo Fornals kom West Ham í 3-1 þegar tíu mínútur lifðu leiks og Jarrod Bowen skoraði fjórða mark West Ham aðeins fjórum mínútum síðar.

Reyndist það síðasta mark leiksins og West Ham vann þægilegan 4-1 sigur sem þýðir að liðið er komið í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig að loknum 10 umferðum. Aston Villa er í 15. sæti með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×