Enski boltinn

Conte á leiðinni til að taka við Tottenham

Sindri Sverrisson skrifar
Antonio Conte stýrði síðast Inter og skildi við félagið sem Ítalíumeistari.
Antonio Conte stýrði síðast Inter og skildi við félagið sem Ítalíumeistari. Getty

Allt bendir til þess að Ítalinn Antonio Conte verði næsti knattspyrnustjóri Tottenham nú þegar félagið hefur sagt Portúgalanum Nuno Espírito Santo upp eftir aðeins fjóra mánuði í starfi.

The Telegraph segir að Tottenham geri nú tilraun til að fá Conte til að snúa aftur í boltann og taka við stjórastöðu félagsins. Miðað við fréttir fleiri enskra miðla er aðeins tímaspursmál hvenær það verður frágengið.

Þessi 52 ára gamli Ítali var síðast stjóri Inter og gerði liðið að ítölskum meistara í vor. Hann hefur áður starfað í ensku úrvalsdeildinni sem stjóri Chelsea á árunum 2016-2018 og undir stjórn Conte varð liðið Englandsmeistari árið 2017 og bikarmeistari 2018.

Á meðal þeirra sem tala um að Conte gæti verið að taka við Tottenham er skúbbkóngurinn Fabrizio Romano. Hann segir á Twitter að Conte sé til í að taka tilboði Tottenham og að viðræður um laun og langtímasamning séu langt komnar. Conte sé væntanlegur til Lundúna til að ganga frá málinu.

Conte er á meðal þeirra sem orðaðir voru við knattspyrnustjórastöðuna hjá Manchester United í síðustu viku, í kjölfar 5-0 taps liðsins gegn Liverpool. Staða Ole Gunnars Solskjær styrktist hins vegar um helgina með 3-0 sigri á Tottenham í síðasta leik liðsins undir stjórn Nunos.

Tottenham er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stig eftir tíu leiki, tíu stigum á eftir toppliði Chelsea.


Tengdar fréttir

Nuno rekinn frá Tottenham

Nuno Espírito Santo hefur verið sagt upp sem knattspyrnustjóra enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×