Erlent

Dæmd í lífs­tíðar­fangelsi fyrir að myrða fimm barna sinna

Atli Ísleifsson skrifar
Konan, sem hefur gengið undir nafninu Christiane K. í þýskum fjölmiðlum, við réttarhöldin í Wuppertal síðasta sumar.
Konan, sem hefur gengið undir nafninu Christiane K. í þýskum fjölmiðlum, við réttarhöldin í Wuppertal síðasta sumar. EPA

Dómstóll í Wuppertal í Þýskalandi dæmdi í dag 28 ára konu í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa banað fimm börnum sínum í borginni Solingen í Norðurrín-Vestfalíu í september á síðasta ári. Málið vakti mikla athygli í Þýskalandi á síðasta ári.

Í dómnum kemur fram að sannað þyki að konan hafi byrlað börnunum með slævandi lyfjum á heimili þeirra og svo kæft þau eftir að hafa séð mynd af eiginmanni sínum með nýrri kærustu. Á konan, sem hefur gengið undir nafninu Christiane K. í þýskum fjölmiðlum, að hafa hótað manninum því ítrekað að hann myndi ekki sjá börnin framar. Börnin voru átta, sex, þriggja, tveggja og eins árs.

Í frétt DW segir að dómari hafi lýst morðunum sem „harmleik“, en amma barnanna kom að þeim látnum í íbúð í fjölbýlishúsi við Hasselstraße í Solingen. Elsta barn konunnar, ellefu ára drengur, komst lífs af, en hann var ekki heima þegar konan drap börnin.

Lögregla handtók konuna eftir að hún hafði reynt að svipta sig lífi með því að stökkva fyrir lest eftir að hafa banað börnunum.

Konan neitaði að gefa skýrslu á meðan á réttarhöldunum stóð og fór verjandi hennar fram á sýknudóm vegna skorts á sönnunargögnum. Dómara þótti hins vegar fullsannað að konan hafi orðið börnunum að bana.

Konan getur ekki sótt um reynslulausn fyrr en að fimmtán árum liðnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×