Eins og fram hefur komið í fréttum greindust fimmtíu manns með Covid-19 á Akranesi í gær. Allir skólar í bænum verða lokaðir á morgun.
Fæstir viðmælenda eru sérlega spenntir fyrir hertari aðgerðum, en átta sig á nauðsyn þeirra.
„Það er ekkert gott að það sé skellt í lás, en þetta er nauðsynlegt“, sagði Pétur Jóhannsson og bætti við að Íslendingar væru alltof kærulausir. „Ég er nýkominn frá Spáni og þar er fólk að pæla miklu, miklu meira í Covid en hér.“
Jón Gunnar Ingibergsson sagði allir bæjarbúar þekktu einhvern sem væri smitaður eða í sóttkví, en fólk viti hvað þurfi að gera. „Það er leiðinlegt að fara aftur í gamla ástandið, en það er eitthvað sem þarf að gera. Græja þetta. Koma lífinu á réttan kjöl aftur.“
„Ég er allavegana sátt við það að það sé skellt í lás,“ sagði Fjóla Guðmundsdóttir, en dóttir hennar er á sjúkrahúsi með Covid. „Ég er ekki tilbúin til að smitast. Ég vil frekar halda jól með fjölskyldunni.“
Framhaldsskólanemarnir Fjölnir Jóhannesson og Karl Þórir Þórsson tóku fréttum um lokun skóla með besta móti.
„Ég fæ að vera heima. Það er næs“, sagði Fjölnir og Karl Þórir bætti við „Fótboltaæfingar falla niður, en annars er þetta magnað.“