Fuller var handtekinn í desember í fyrra vegna gruns um að hafa myrt Wendy Knell (25) og Caroline Pierce (20) í tveimur mismunandi árásum árið 1987.
Knell fannst látin í íbúð sinni í Tunbridge Wells skammt suður af Lundúnum í júní 1987 en Pierce hvarf nokkrum mánuðum síðar. Nágrannar hennar höfðu heyrt öskur úr íbúð hennar en lík hennar fannst í skurði nokkrum dögum síðar. Erfðaefni fundust í báðum tilfellum.
Fuller var handtekinn á heimili hans í Heathfield, sem er bær skammt frá Tunbridge Wells.
Hér má sjá myndband frá lögreglunni frá því í desember í fyrra þegar Fuller var handtekinn.
Í gær játaði Fuller að hafa myrt konurnar en hann játaði einnig að hafa svívirt lík þeirra og tuga annarra kvenna og stúlkna á tveimur líkhúsum og að hafa tekið myndbönd af því.
Paul Fotheringham, sem leiddi rannsókn lögreglunnar, segir í tilkynningu að rannsóknin hafi verið einstaklega flókin og erfið.
Hafði mök við minnst hundrað lík
Fuller starfaði sem rafvirki á tveimur sjúkrahúsum í Kent og lögreglan telur hann hafa níðst á minnst hundrað líkum á þeim sjúkrahúsum. Búið er að staðfesta 81 brot sem Fuller er sagður hafa framið. Brotin framdi hann frá 2008 til 2020, samkvæmt frétt Guardian.
Í frétt miðilsins segir að Fuller sé talinn skæðasti náriðill í sögu Bretlands.
Lögreglan fann harða diska á heimili hans sem Fuller hafði falið en þar fannst myndefni af honum níðast á líkum.
Hér má sjá myndband frá lögreglunni sem tekið var þegar hörðu diskarnir fundust á heimili Fuller. Fimm terabæt af myndefni fundust á þessum hörðu diskum.
Fréttin hefur verið uppfærð.