Undirbúningskjörbréfanefnd Alþingis lýkur væntanlega innan viku skoðun sinni á framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi þar sem í megindráttum má sjá fyrir sér þrjár mögulegar niðurstöður. Að fyrri talning atkvæða í kjördæminu verði látin gilda, seinni talningin gildi eða að boðað verði til uppkosninga í kjördæminum.
Slík kosning færi fram á sömu forsendum og kosningarnar hinn 25. september, sömu framboðslistar yrðu í boði og farið yrði eftir sömu kjörskrá og þá var í gildi.
Ef boðað yrði til uppkosninga gætu úrslitin að sjálfsögðu orðið önnur en í nýliðnum alþingiskosningum. Það þýðir að breyting gæti orðið á skiptingu kjördæmakjörinna þingmanna í kjördæminu og á útdeilingu jöfnunarþingmanna á landsvísu. Og það yrði einmitt raunin samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofuna.

Samkvæmt könnuninni sem gerð var frá 26. október til 4. nóvember breytist fylgi flestra flokka í kjördæminu lítið nema fylgi Samfylkingarinnar sem eykst úr 6,9 prósentum í 8,9 eða um tvö prósentustig. Það dygði Samfylkingunni til að ná inn manni í kjördæminu sem hún hafði ekki áður og Framsóknarflokkurinn missir þriðja þingmann sinn þar. Þannig myndi Halla Signý Kristjánsdóttir víkja af þingi fyrir Valgarði Lyngdal Jónssyni.

Ef könnun Maskínu gengi eftir yrði líka breyting á jöfnunarþingönnum í Suðvesturkjördæmi. Píratinn Gísli Rafn Ólafsson dytti út af þingi og í hans stað kæmi Arnar Þór Jónsson inn á þing sem fimmti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Þetta myndi þó ekki breyta samanlögðum þingmannafjölda stjórnarflokkanna annars vegar og stjórnarandstöðuflokkanna hins vegar. Sjálfstæðisflokkurinn færi úr 17 þingmönnum í átján, Framsóknarflokkurinn úr þrettán í tólf stjórnarmeginn og Píratar færu úr sex þingmönnum í fimm en Samfylkingin úr sex í sjö stjórnarandstöðumeginn.