Fótbolti

Lewandowski í hóp með Messi og Ronaldo

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Lewandowski skoraði í gær
Lewandowski skoraði í gær EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND

Ótrúlegt ár pólska framherjans Robert Lewandowski heldur áfram. Með marki sínu á móti Freiburg í gær er hann búinn að skora 60 mörk fyrir Bayern Munchen og Pólska landsliðið samanlagt á þessu ári.

Lewandowski getur farið umtalsvert lengra í markaskorun sinni á árinu þar sem hann á heila tíu leiki eftir samanlagt og er líklegur til þess að spila þá alla. Lewandowski kom til Bayern Munchen árið 2014 frá erkifjendunum í Borussia Dortmund þar sem hann var einnig þekktur fyrir að raða inn mörkunum.

Síðasti leikmaðurinn til þess að ná að skora 60 mörk á einu ári var Cristiano Ronaldo. Ronaldo skoraði 69 mörk árið 2013 og 61 mark árið 2014 fyrir Real Madrid og Portúgalska landsliðið. Hvorugur þeirra er þó nálægt metinu, en það á Argentínumaðurinn Lionel Messi sem skoraði 91 mark árið 2012. Ótrúlegur.

Lewandowski þykir líklegur til þess að krækja í sinn fyrsta Gullbolta, Ballon d'or, en hans helsta samkeppni kemur líklega frá Lionel Messi hjá PSG og Mohammed Salah hjá Liverpool. Nýlega sagði Luis Suarez, leikmaður Atletico Madrid, að ef hann sjálfur myndi vinna Gullboltann myndi hann skutla honum heim til Lewandowski.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×