Jón Dagur er íslenska landsliðshópnum sem mætir Rúmeníu og Norður-Makedóníu í síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppni HM 2022.
Valgerður segir að snemma hafi orðið ljóst að Jón Dagur myndi ná langt á fótboltabrautinni.
„Hann var alltaf það efnilegur og góður og gerði ekkert annað en að vera úti í fótbolta. Það sást snemma að hann ætlaði sér að ná langt. Hann hefur alltaf verið þannig karakter. Hann var alltaf að spila fótbolta og það þurfti að draga hann inn klukkan ellefu á kvöldin,“ sagði Valgerður í samtali við Vísi.
„Hann hefur alltaf lagt hart að sér og er skemmtilegur karakter. Það er alltaf gaman að fylgjast með honum.“
Jón Dagur hefur fengið það orð á sig í Danmörku að vera frekar óþolandi inni í vellinum og verið sakaður um leikaraskap. Kenneth Emil Petersen, álitsgjafi hjá danska ríkissjónvarpinu, sagði hann meðal annars mest pirrandi leikmann dönsku úrvalsdeildarinnar.
„Hann er stríðnispúki og það er alltaf stutt í húmorinn. En hann fer líka langt á þessu. Það eru ekki bara hæfileikarnir. Það vilja allir hafa hann í sínu liði, frekar en á móti sér,“ sagði Valgerður.
En eru systkinin með svipað skap?
„Já, ég myndi alveg segja það. Hann lætur kannski frekar hanka sig á því. Ég er lúmskari með þetta. Við erum mikið keppnisfólk og á spilakvöldum um jólin vill enginn tapa. Það er skemmtilegt og við fáum þetta frá foreldrum okkar,“ sagði Valgerður.