Enski boltinn

Conte tekur til hjá Tottenham: Langir mynd­bands­fundir, engar sósur og æfingar sem keyra menn út

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Conte er líflegur á hliðarlínunni.
Conte er líflegur á hliðarlínunni. EPA-EFE/NEIL HALL

Antonio Conte hefur heldur betur látið til sín taka á fyrstu dögunum sem þjálfari Tottenham Hotspur. Tekið hefur verið til í mataræði leikmanna og þá var föstudagsæfingin svo erfið að menn voru örmagna.

Conte er ekki mikið fyrir að tvínóna við hlutina og var ekki lengi að láta leikmenn vita hver fer með völdin nú hjá Tottenham. Fyrsta æfingin hans var svo erfið að menn litu út fyrir að þeir hefðu hlaupið maraþon frekar en fótboltaæfingu.

Þetta passar við lýsingu ítalska varnarjaxlsins Giorgio Chiellini sem lýsti því að menn væru ekki þreyttir eftir æfingar Conte heldur svo gott sem dánir.

Sumir leikmanna Tottenham höfðu spilað í 3-2 sigrinum gegn Vitesse í Sambandsdeild Evrópu. Aðeins tólf tímum síðar voru þeir mættir á á mest krefjandi æfingu félagsins síðan Mauricio Pochettino var þjálfari þess.

Fyrir títtnefnda æfingu var myndbandsfundur þar sem farið var yfir leikinn gegn Vitesse. Sá fundur átti að vera 20 mínútur en endaði á að vera 75 mínútur og hófst æfingin ekki fyrr en rúmlega klukkustund eftir að hún átti að hefjast.

Conte telur fullmarga leikmenn liðsins vera í yfirþyngd – allavega þegar kemur að leikmönnum á hæsta getustigi – og hefur því ákveðið að taka til í mötuneyti félagsins.

Conte vill taka til hendinni.EPA-EFE/ANDREW YATES

Þungur matur og samlokur að loknum æfingum heyra sögunni til. Sömu sögu er að segja af tómatsósu og mæjónesi. Ávaxtasafi verður af skornum skammti og verður matur ekki lengur eldaður upp úr olíu og smjöri. Þá vill Conte að leikmenn sínir borði meira af ávöxtum.

Tottenham er sem stendur í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 16 stig að loknum 11 leikjum. Nú er bara að bíða og sjá hvort breytingar Conte hafi tilætluð áhrif og Tottenham lyfti sér upp töfluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×