Erlent

Pútín svarar hótunum Lúkasjenka

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Vladímír Pútín, forseti Rússlands.
Vladímír Pútín, forseti Rússlands. EPA/Metzel

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hótuðu að skrúfa fyrir gasleiðslur sem liggja til ríkja Evrópusambandsins í vikunni. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, tekur hótununum Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, ekki af léttúð. 

„Að sjálfsögðu gæti Lúkasjenka, sem forseti landsins, tæknilega séð skrúfað fyrir gas til Evrópu. Geri hann það er um brot á samningi okkar að ræða, og ég vona að það komi ekki til þess,“ segir Pútín.

Gasleiðslurnar sem um ræðir liggja frá Rússlandi í gegnum Hvíta-Rússland. Pútín heldur áfram og segir: „Það er ekkert gott við þetta og ég mun að sjálfsögðu ræða þetta við hann [Lúkasjenka]. Kannski sagði hann þetta í stundarbrjálæði.“

Þúsundir eru nú við landamæri Hvíta-Rússlands og Póllands en Pólverjar hafa kallað út herinn til að verja landamærin. Fjöldi flóttafólks hefur látið lífið á svæðinu síðan í ágúst en ástandið er verulega slæmt. Hitastig er farið niður fyrir frostmark og fólk er talið í lífshættu. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sagt Lúkasjenka laða flótta- og farandfólk til landsins og nota það í pólitískum tilgangi. UNICEF hefur einnig fordæmt ástandið á landamærunum og segir að um skýrt brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé að ræða.


Tengdar fréttir

Lúkasjenka óskar eftir hernaðaraðstoð frá Rússlandi

Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, hefur óskað eftir því að fá lánaðar sprengjuflugvélar, sem geti borið kjarnorkuvopn, frá Rússum. Samkvæmt talsmanni Kreml er Vladímír Pútín, forseti Rússlands, í stöðugu sambandi við Lúkasjenka vegna ástandsins á landamærunum. 

ESB segir Lúkasjenka haga sér eins og glæpamaður

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, um að laða flótta- og farandfólk til landsins og nota það í pólitískum tilgangi. Hegðun hans sé ómannúðleg og glæpsamleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×