Innlent

Ekki hvarflað að Gunnari Smára að fara í borgina

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Gunnar Smári sat í efsta sæti á lista Sósíalistaflokksins í Reykjavík norður í alþingiskosningunum en komst ekki inn.
Gunnar Smári sat í efsta sæti á lista Sósíalistaflokksins í Reykjavík norður í alþingiskosningunum en komst ekki inn. vísir

Gunnar Smári Egils­son, stofnandi Sósíal­ista­flokksins, reiknar ekki með að gefa kost á sér í sveitar­stjórnar­kosningunum næsta vor. Það skýrist eftir ára­mót hvort flokkurinn bjóði fram í fleiri sveitar­fé­lögum en Reykja­vík.

Gunnar Smári sat í efsta sæti á lista flokksins í Reykja­vík norður fyrir al­þingis­kosningarnar í haust en flokkurinn náði ekki manni inn.

Hann á þó full­trúa í einu sveitar­fé­lagi landsins; Sanna Magda­lena Mörtu­dóttir komst inn sem borgar­full­trúi í Reykja­vík í síðustu kosningum.

Gunnar Smári segir í sam­tali við frétta­stofu að það sé ekki enn búið að taka á­kvörðun um hvort hann bjóði fram í fleiri sveitar­fé­lögum í kosningunum.

„Þetta er nú svona í litlum flokki, þing­kosningar ný­búnar og jólin að koma. En það verður lík­lega búið að taka á­kvörðun um það ein­hvern tíma í kring um ára­mót,“ segir Gunnar Smári.

Færi ekki fram í öðru sveitarfélagi

Nokkrir fundir hafi verið haldnir innan flokksins um fram­boð í Reykja­vík.

Sjálfur segist Gunnar Smári ekki ætla að gefa kost á sér í það. „Nei, það hafði nú aldrei hvarflað að mér.“

En kæmi til greina að reyna við annað sveitar­fé­lag?

„Nei, ég er nú búinn að búa í Reykja­vík síðan ég var tveggja ára og hef ekki hugsað mér að ætla að fara að láta eins og ég búi annars staðar,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×