Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar, sem ræddi við Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóra á Berki, í morgun en skipið var þá statt djúpt vestur á Hala í loðnuleit. Börkur hefur leitað loðnu ásamt Bjarna Ólafssyni AK síðustu daga.
Haft er eftir Hjörvari að þeir séu búnir að leita á Kolbeinseyjarhrygg, norðan við Strandagrunn og á Þverálshorni og þeir séu núna djúpt vestur á Halanum.
„Það er fyrst núna sem við sjáum loðnutorfur en þá bregður svo við að það er leiðindaveður. Hérna er bölvuð bræla, 25-28 metrar og sjórinn mínus ein gráða. Það á hins vegar að lægja í kvöld og þá verður einhver friður í sólarhring eða svo samkvæmt spá,“ segir skipstjórinn.

Þá hafi fréttir borist frá togurum um að vart verði við meira líf á svæðinu og fiskur sem fáist sé fullur af loðnu.
„Það er semsagt loðna hér á ferðinni en það er fyrst núna sem við verðum varir við einhverjar alvörulóðningar. Menn verða að vera þolinmóðir í loðnuleitinni. Þetta á allt eftir að koma og það er mikilvægt að fylgjast vel með. Loðnutorfurnar sem við sjáum hér standa djúpt en við sjáum til hvað gerist þegar veðrið batnar,“ segir Hjörvar í samtali við heimasíðu SVN.
Fjallað var um loðnuveiðar í þættinum Um land allt fyrr á árinu. Hér má sjá kafla úr þættinum: