Erlent

Rúm­lega 100 þúsund létust vegna of­neyslu lyfja í Banda­ríkjunum á einu ári

Atli Ísleifsson skrifar
Aukningin var mest í Vermont þar sem slíkum tilfellum fjölgaði um 70 prósent.
Aukningin var mest í Vermont þar sem slíkum tilfellum fjölgaði um 70 prósent. Getty

Bandarísk heilbrigðsyfirvöld áætla að rúmlega 100 þúsund manns hafi látist af völdum ofneyslu fíkniefna og lyfja á tólf mánaða tímabili í heimsfaraldrinum. Þetta er mesti slíki fjöldinn á árstímabili í sögu Bandaríkjanna.

BBC segir frá því að gögn frá heilbrigðisyfirvöldum sýni að dauðsföllum vegna ofneyslu hafi fjölgað um 28,5 prósent á tólf mánaða tímabili sem lauk í apríl síðastliðinn. 

Slíkum tilfellum fjölgaði þannig í 46 af fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna. Aukningin var mest í Vermont þar sem tilfellum fjölgaði um 70 prósent, en fjölgunin nam 62 prósentum í Vestur-Virginíu og 55 prósent í Kentucky.

Heildarfjöldi dauðsfalla vegna ofneyslu á tímabilinu apríl 2019 til apríl 2020 voru samkvæmt bandarískum yfirvöldum 100.306, samanborið við rúmlega 78 þúsund árið áður.

Sérfræðingar telja að dauðsföllum vegna ofneyslu hafi fjölgað vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem heimsfaraldurinn hafi haft á andlega líðan mikils fjölda fólks og sömuleiðis auknu framboði af ópíóðum eins og fentanýli. 

Þá hafi þeim fjölgað sem neyti efnanna í einrúmi sem auki líkur á að fólk látist af ofneyslu. Sömuleiðis hafi aðgengi að aðstoð vegna fíkniefna- og lyfjaneyslu versnað á tímum heimsfaraldursins.

Dauðsföll vegna ofneyslu voru fleiri í landinu á umræddu tólf mánaða tímabili en samanlögð dauðsföll vegna umferðarslysa, skotárása og inflúensu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×