Enski boltinn

Banda­ríkja­menn borga nú 165 milljörðum meira fyrir sjón­varps­réttinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah og Sadio Mane hjá Liverpool verða áfram í beinni á NBC Sports í framtíðinni.
Mohamed Salah og Sadio Mane hjá Liverpool verða áfram í beinni á NBC Sports í framtíðinni. Getty/Simon Stacpoole

Enska úrvalsdeildin í fótbolta hefur náð samkomulagi um nýjan sjónvarpsrétt fyrir deildina í bandarísku sjónvarpi og það er óhætt að segja að Bandaríkjamenn séu nú farnir að borga alvöru upphæð fyrir réttinn.

NBC tryggði sér nefnilega sjónvarpsréttinn fyrir tvo milljarða punda eða 263 milljarða íslenskra króna. NBC verður því með ensku úrvalsdeildina frá 2022-23 til 2027-28.

Áhugi á ensku úrvalsdeildinni hefur verið á hraðri uppleið í Bandaríkjunum þar annars konar fótbolti hefur átt hug og hjörtu allra. Nú er evrópski fótboltinn að verða mun vinsælli.

Þetta sést líka á stækkun samningsins. Bandaríkjamenn borga nú 165 milljörðum meira fyrir sjónvarpsréttinn frá ensku úrvalsdeildinni en þetta er 270 prósent hækkun á upphæðinni sem NBC borgaði fyrir sjónvarpsréttinn frá 2015 til 2022.

NBC Sports hefur verið hrósað fyrir umfjöllun sína um enska boltann og á því mikinn þátt í auknum áhuga.

Það fylgir sögunni að eins og að bandarísk íþróttaefni er á dagskrá seint á kvöldin að breskum tíma þá er breskt íþróttaefni á dagskrá snemma á morgnanna í Bandaríkjunum og því langt frá því að vera á besta sjónvarpstíma á kvöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×