
Sævar Helgi Bragason, stjörnuáhugamaður og vísindamiðlari, segist himinlifandi með myrkvann þegar fréttastofa náði tali af honum. „Betur fór en á horfðist. Við erum vel að sjá þetta þó að skýin fari annað slagið fyrir. Þetta blasir við núna.“
Sævar Helgi segir tilfinninguna dásamlega að fá að fylgjast með slíkum myrkvum. „Þetta er alltaf jafn gull, gullfallegt. Það er líka svo skemmtilegt að það sé eitthvað að gerast sem allir á norðurhveli jarðar geti séð samtímis. Það er ekki til margt slíkt.“
Hann segir þennan deildarmyrkva vera mjög fallegan. „Þetta er mjög djúpur deildarmyrkvi. Rauði liturinn í alskugga jarðar er mjög áberandi á tunglinu núna. Þessu lýkur svo rúmlega 10 þegar tunglið sest,“ segir Sævar Helgi.

Deildarmyrkvinn hófst klukkan 7:19 og verður í hámarki klukkan 9:03, að því er segir í grein á Stjörnufræðivefnum. Tunglið sest klukkan 10:20 áður en myrkvanum lýkur, en þegar myrkvinn stendur sem hæst verða 97 prósent skífu tunglsins í skugga.
Ólíkt sólmyrkva þarf engin hjálpartæki til að fylgjast með tunglmyrkvanum en ekki er verra að nota handsjónauka eða stjörnusjónauka til þess að bæta upplifunina enn frekar.

