Enski boltinn

Á­fall fyrir Hamranna: Ogbonna frá út tíma­bilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Angelo Ogbonna verður frá út tímabilið.
Angelo Ogbonna verður frá út tímabilið. Rob Newell/Getty Images

Stórt skarð var höggið í titilvonir West Ham United er liðið lagði Liverpool óvænt 3-2 í ensku úrvalsdeildinni í síðasta leik fyrir landsleikjahlé. Ítalski miðvörðurinn Angelo Ogbonna meiddist í leiknum og verður frá út tímabilið.

David Moyes, þjálfari liðsins, ræddi við blaðamenn í dag en West Ham heimsækir Wolves á morgun er enska deildin fer af stað á nýjan leik eftir landsleikjahlé. Þar staðfesti hann að meiðslin sem Ogbonna varð fyrir gegn Liverpool myndu halda honum utan vallar það sem eftir lifði leiktíðar.

Ogbonna var tekinn af velli gegn Liverpool eftir að hafa fengið skurð fyrir ofan augað. Á bekknum fór hann að finna fyrir óþægindum í hné og nú hefur komið í ljós að liðband í hné er skaddað.

Samningur hins 33 ára gamla Ogbonna við West Ham átti að renna út sumarið 2022 en West Ham ætlar að nýta sér ákvæði í samningi leikmannsins og framlengja samning hans um ár svo hann verður áfram í Lundúnum til sumarsins 2023.

Ogbonna hefur leikið í öllum 11 deildarleikjum West Ham á leiktíðinni og er stór ástæða þess að liðið er sem stendur í 3. sæti deildarinnar. Með sigri á Wolves getur West Ham stokkið upp í 2. sæti deildarinnar, tímabundið allavega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×