Körfubolti

Ragnar Örn öfundar Brynjar Þór: „Væri til í að vera jafn smooth og hann í að vera fantur“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ragnar Örn Bragason í leik með Þór Þorlákshöfn.
Ragnar Örn Bragason í leik með Þór Þorlákshöfn. Vísir/Bára Dröfn

Ragnar Örn Bragason, leikmaður Íslandsmeistara Þórs Þorlákshafnar, segist mjög hrifinn af KR-ingnum Brynjari Þor Björnssyni sem leikmanni. Þá segist hann vera til í að vera jafn „smooth“ og Brynjar Þór þegar kemur að fantaskap.

Ragnar Örn var í viðtali í hlaðvarpsþættinum Undir Körfunni, þætti á vegum Karfan.is. Þar ræddi hann dálæti sitt á Brynjari Þór.

„Ég hef alltaf elskað að horfa á Brynjar Þór Björnsson spila körfubolta,“ segir Ragnar Örn en Brynjar Þór er þekktur sem ein besta þriggja stiga skytta Íslands. Þá væri Ragnar Örn „alveg til í að vera jafn smooth og hann í að vera fantur.“

„Ég held að hann geti verið sammála mér að hann hafi heldur ekkert voðalega gaman að keppa á móti mér. Ég hef gaman af því að gefa honum létt olnbogaskot og fá það til baka,“ bætir Íslandsmeistarinn við.

KR og Þór Þorlákshöfn mætast 9. desember næstkomandi og vonast Ragnar til að dómararnir verði annars hugar í þeim leik.

„Vonandi eru engir dómarar að hlusta svo við fáum að kýtast aðeins.“

Ragnar Örn var stór hluti af Íslandsmeistaraliði Þórs á síðustu leiktíð en hann á þó töluvert í að ná þeim átta Íslandsmeistaratitlum sem átrúnaðargoð hans Brynjar Þór á.

Brynjar Þór Björnsson er í miklu uppáhaldi hjá Ragnari Erni.Vísir/Bára Dröfn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×