Viðskipti innlent

Tempo festir kaup á Roadmunk

Eiður Þór Árnason skrifar
Eignarhlutur Origo í Tempo helst óbreyttur eftir viðskiptin.
Eignarhlutur Origo í Tempo helst óbreyttur eftir viðskiptin. Origo

Tempo, dótturfélag Origo, hefur fest kaup á hugbúnaðarfyrirtækinu Roadmunk Inc. Félagið þróar samnefndan hugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að byggja upp, hanna og miðla stefnu fyrir hugbúnaðarvörur með sjónrænum hætti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Origo. Árlegar tekjur Roadmunk eru sagðar vera um 12,5 milljónir Bandaríkjadala eða um 1,6 milljarðar króna og er félagið með jákvætt sjóðsstreymi. Meðal viðskiptavina Roadmunk eru alþjóðleg fyrirtæki á borð við Microsoft, VISA, Fedex, Disney, Hulu og NFL.

Roadmunk var stofnað árið 2012 af Latif Nanji, Tomas Benda og Jalil Asaria. Félagið er með höfuðstöðvar í Toronto í Kanada

Áætlað er að kaupin gangi endanlega í gegn fljótlega eftir undirskrift. Kaupin eru fjármögnuð af Tempo og verða engin ný hlutabréf gefin út vegna viðskiptanna. Eignarhlutur Origo í Tempo helst óbreyttur eftir viðskiptin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×