Erlent

Kærasti Petito svipti sig lífi

Kjartan Kjartansson skrifar
Brian Laundrie sést hér á upptöku úr myndavél lögregluþjóns sem stöðvaði hann og Petito í Utah í ágúst. TIlkynning hafði borist um að parið ætti í rifrildi og að Laundrie hefði slegið Petito.
Brian Laundrie sést hér á upptöku úr myndavél lögregluþjóns sem stöðvaði hann og Petito í Utah í ágúst. TIlkynning hafði borist um að parið ætti í rifrildi og að Laundrie hefði slegið Petito. AP/lögreglan í Moab

Brian Laundrie, kærasti Gabrielle Petito sem fannst látin eftir ferðalag parsins í september, svipti sig lífi, að sögn lögmanns Laundrie-fjölskyldunnar. Hann lét sig hverfa eftir að hann sneri einn heim úr ferðalaginu en lík hans fannst í síðasta mánuði.

Lögmaður fjölskyldunnar segir að yfirvöld hafi nú sagt foreldrum Laundrie að dánarorsök hans hafi verið skotsár á höfði sem hann veitti sjálfum sér, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Mál parsins vakti mikla athygli innan og utan Bandaríkjanna. Það hafði farið mikið á samfélagsmiðlum í reisu sinni á sendiferðabíl um landið og aflað sér nokkurs hóps fylgjenda. Þegar Laundrie, sem var 23 ára gamall, sneri heim til foreldra sinna á Flórída 1. september var hann einn á ferð. Foreldrar Petito, sem var 22 ára gömul, tilkynntu að hennar væri saknað 11. september.

Lík Petito fannst við þjóðgarð í Wyoming þar sem parið hafði ferðast átta dögum síðar. Krufning leiddi í ljós að hún hafði verið kyrkt. Lögregla hafði hug á að ræða við Laundrie vegna dauða Petito en hvorki hann né foreldrar hans samþykktu það.

Áður en lögreglumenn gátu yfirheyrt Laundrie lét hann sig hverfa. Foreldrar hans sögðu að hann hefði farið einn í göngu á náttúruverndarsvæði á Flórída 13. september. Umfangsmikil leit fór fram á svæðinu en lík Laundrie fannst ekki fyrr en 20. október. Bera þurfti kennsl á lík hans út frá tannlæknagögnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×