Liverpool enn með fullt hús stiga í B-riðli

Jordan Henderson og Mo Salah fagna seinna marki Liverpool.
Jordan Henderson og Mo Salah fagna seinna marki Liverpool. Clive Brunskill/Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, gat leyft sér að hvíla nokkra lykilmenn er liðið tók á móti Porto í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Það kom þó ekki að sök og Liverpool vann góðan 2-0 sigur.

Þrátt fyrir að tveim umferðum væri enn ólokið var Liverpool nú þegar búið að tryggja sér efsta sæti B-riðils fyrir leik kvöldsins.

Mikið breytt Liverpool liðið átti í örlitlum vandræðum fyrstu mínúturnar, en þeir voru fljótir að finna taktinn.

Sadio Mane hélt að hann hefði komið heimamönnum yfir á 38. mínútu, en eftir skoðun myndbandsdómara var sóknarmaðurinn dæmdur rangstæður.

Staðan var því enn 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja, en Thiago Alcantara kom Liverpool í forystu þegar seinni hálfleikur var aðeins sjö mínútna gamall.

Þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka tryggði Mohamed Salah Liverpool 2-0 sigur með góðu marki eftir fallegt þríhyrningsspil við Jordan Henderson.

Liverpool er því enn lang efst á toppi B-riðils með 15 stig eftir fimm leiki. Porto er enn í öðru sæti með fimm stig, en önnur úrslit kvöldsins þýða það að Porto er á leið í úrslitaleik gegn Atlético Madrid um sæti í 16-liða úrslitum. AC Milan á einnig enn möguleika á sæti í 16-liða úrslitum, en þá þarf liðið að vinna Liverpool í lokaleik riðilsins og treysta á að Porto og Atlético geri jafntefli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira