Þetta sögðu Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, að loknum fundi með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í Ráðherrabústaðnum í dag. Fundinum lauk á öðrum tímanum í dag.
Katrín sagði að laugardagurinn fari í að funda í flokksstofnunum þar sem stjórnarsáttmálinn verður lagður fyrir flokkana.
„Ef þeir leggja blessun sína á stjórnarsáttmálann verður þetta kynnt í kjölfarið,“ sagði Katrín. Stefnt er að því að það gerist á sunnudaginn eftir ríkisráðsfund með forseta Íslands á Bessastöðum.
Sigurður Ingi segir nýja ríkisstjórn, skipuð sömu flokkum og áður, verða ríkisstjórn stórra verka - eins og þá fyrri. Hún sé hins vegar stöðugt að færast í átt að meiri skynsemi.
Aðspurður hvort fjölgað yrði í hópi ráðherra vildi Sigurður Ingi ekki staðfesta neitt en minnti á að talað hefði verið fyrir því. Sigurður Ingi lofaði því síðasta sumar að nýtt innviðaráðuneyti myndi líta dagsins ljós næði Framsóknarflokkurinn góðri niðurstöðu í kosningunum 25. september, sem varð raunin.