Miðasala á leikinn er hafin í appinu Stubbur. Sigurgeir Árni Ægisson, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar FH, staðfesti við Vísi í dag að miðar yrðu seldir í eitt 500 manna hólf en auk þess verða tvö 50 manna hólf svo að yngri iðkendur úr röðum FH geti mætt á leikinn. Alls gætu því í besta falli 600 manns mætt á leikinn.
Flest íþróttafélög hafa farið þá leið að banna áhorfendur á leikjum vegna þeirra samkomutakmarkana sem gilda, þar sem aðeins 50 áhorfendur mega vera í hverju rými nema með notkun hraðprófa en þá mega 500 manns vera í rými.
Sigurgeir segir FH-inga hafa metið það svo að það væri þess virði að láta á það reyna fyrir Hafnarfjarðarslaginn hvort að fólk væri tilbúið að fara í hraðpróf og mæta aftur á leik í Krikanum. Það væri hins vegar leitt að engin hraðprófsstöð væri í Hafnarfirði, þó að það kynni að standa til bóta.
Haukar og FH eru efstu lið Olís-deildarinnar eftir tíu umferðir og aðeins einu stigi munar á liðunum. Sigurliðið á morgun mun því sitja í toppsætinu en Haukum dugar jafntefli til að halda sér á toppnum.