Kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi tíðkaðist árum saman gagnvart börnum sem dvöldu hjá hjónum sem ráku barnaheimili á Hjalteyri í Hörgársveit á áttunda áratug síðustu aldar, eins og kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðasta mánuði.
Heimilið var í umsjá hjónanna Einars og Beverly og alls dvöldu áttatíu börn hjá þeim í lengri eða skemmri tíma.
Einnig starfræktu þau hjón leikskóla og voru dagforeldrar í Garðabæ um tíma á árunum 1998-2015. Garðabær hefur ákveðið að ráðast í úttekt á starfsemi sem fram fór innan leikskóla og í daggæslu sem umrædd hjón störfuðu við. Segist sveitarfélagið líta málið alvarlegum augum.
Nú þegar hafi einhverjir haft samband
EAÞ ráðgjör mun framkvæmda úttektina og er vinna þegar hafin hjá Garðabæ við að afla nánari upplýsinga um störf þeirra sem dagforeldra og um leikskólareksturinn sem fram fór í Garðabæ, svo sem gögn um verklag, lög og reglur, gögn um börn og starfsmenn.
„Farið verður gaumgæfilega yfir hvernig verklagið var, hvort farið var eftir því, hvort vinnulag sé með öðrum hætti í dag og lærdómur dreginn af því um hvernig má gera betur,“ segir í tilkynningu frá bænum.
Vegna úttektarinnar óskar Garðabær eftir því að foreldrar eða þeir sem voru í leikskóla eða í daggæslu hjá þeim hjónum í Garðabæ hafi samband til að veita upplýsingar um starfsemina.
Nú þegar hafa einhverjir hlutaðeigandi haft samband við bæjarskrifstofur Garðabæjar, að því er segir í tilkynningunni.
Upplýsingar um hvernig er hægt að hafa samband við starfsfólk Garðabæjar vegna málsins
Hægt er að hringja í þjónustuver Garðabæjar vegna málsins í s. 525 8500 eða senda tölvupóst á netfangið gardabaer@gardabaer.is með fyrirspurnum, ábendingum eða óskum um samtal og/eða ráðgjöf. Einnig er hægt að hafa beint samband við Anný Rós Ævarsdóttur félagsráðgjafa á fjölskyldusviði Garðabæjar í netfangi annyaev@gardabaer.is Haft verður samband eins fljótt og auðið er við alla þá sem hringja eða senda t-póst.