Valur vann sinn þriðja leik í röð með sigri í Smáranum. Valur átti frábæran 4. leikhluta sem endaði með 27 stiga sigri 72-98.
Valur byrjaði leikinn af miklum krafti og var að spila af sömu ákefð og í síðasta leik. Þegar líða tók á 1. leikhluta var Valur ellefu stigum yfir. Breiðablik hafði aðeins skorað fimm stig á tæplega sjö mínútum.
Eftir erfiða byrjun hjá Breiðabliki náðu heimakonur góðum kafla og gerðu átta stig í röð og minnkuðu forskot Vals niður í fjögur stig.
Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta. Michaela Lynn Kelly setti niður þriggja stiga körfu og minnkaði forskot Vals niður í eitt stig. Valur svaraði með fimm stigum í röð.
Michaela Lynn Kelly var með Breiðablik á sínum herðum í fyrri hálfleik og sá um sóknarleik liðsins. Michaela gerði 14 af 32 stigum Breiðabliks í fyrri hálfleik. Valur var fimm stigum yfir í hálfleik 32-37.
Þriðji leikhluti var bráðfjörugur. Bæði lið spiluðu af miklum þunga sóknarlega og var þetta stigahæsti leikhluti leiksins. Breiðablik sýndi mikinn dugnað í að missa Val ekki langt fram úr sér þegar Valur gerði tvær þrjár körfur í röð.
Valur byrjaði fjórða leikhluta af miklum krafti og gerðu Valskonur fyrstu átta stigin. Valur hitti nánast úr öllum sínum skotum í byrjun fjórða leikhluta og átti Breiðablik engin svör við leik Vals. Staðan var orðinn 65-85 og ljóst hvar sigurinn myndi lenda.
Valur vann að lokum 26 stiga sigur 72-98.
Af hverju vann Valur?
Fjórði leikhluti Vals vann leikinn. Valur spilaði frábærlega á báðum endum vallarins. Valur skaut Breiðablik í kaf og spilaði töluvert betri vörn heldur en í hinum þremur leikhlutunum.
Valur skoraði sín flestu stig í fjórða leikhluta ásamt því skoraði Breiðablik sín fæstu stig í fjórða leikhluta.
Hverjar stóðu upp úr?
Ameryst Alston var stigahæst í liði Vals með 31 stig og tók einnig 10 fráköst.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir og Hallveig Jónsdóttir spiluðu vel í kvöld. Dagbjört gerði 21 stig og Hallveig 19 stig og tók 7 fráköst.
Michaela Lynn Kelly sá alfarið um sóknarleik Breiðabliks og endaði með 31 stig.
Hvað gekk illa?
Breiðablik byrjaði og endaði leikinn afar illa. Breiðablik byrjaði snemma á að lenda ellefu stigum undir og var allan leikinn að elta Val. Eftir góða baráttu var jafnræði með liðunum þar til í 4. leikhluta. Þá virtist tankurinn vera tómur og Valur valtaði yfir Breiðablik á endanum.
Hvað gerist næst?
Valur fær Njarðvík í heimsókn næsta sunnudag klukkan 20:15.
Í Smáranum eigast við Breiðablik og Skallagrímur næsta sunnudag klukkan 19:15.
Ívar: Vorum skelfilegar varnarlega í fjórða leikhluta

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks var afar svekktur með hvernig hans lið hrundi í fjórða leikhluta.
„Við börðumst í þrjá leikhluta sem dugar ekki gegn Íslandsmeisturunum. Við vorum inn í leiknum en Valur einfaldlega valtaði yfir okkur í síðasta fjórðungi. Valur hitti úr öllu, Ameryst, Hallveig og Dagbjört voru allar frábærar í kvöld,“ sagði Ívar Ásgrímsson svekktur eftir leik.
Valur komst snemma tíu stigum yfir og það fór mikil orka í að minnka forskot Vals og tók Ívar undir með að tankurinn hafi verið tómur í fjórða leikhluta hjá Breiðabliki.
„Það gæti verið að það hafi farið of mikil orka í fyrstu þrjá leikhlutana. Allavega var ekki kraftur í okkur í fjórða leikhluta sem eyðilagði fyrir okkur þokkalegan leik að öðru leyti,“ sagði Ívar að lokum.