Fótbolti

Mættu á æfingu liðsins klukkan fimm um morguninn með flugelda, blys og læti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn liðsins fengu ótrúlega móttökur þegar þær mættu eldsnemma á æfingu.
Leikmenn liðsins fengu ótrúlega móttökur þegar þær mættu eldsnemma á æfingu. Instagram/kvvquickboys

Hollenska áhugamannaliðið Quick Boys hefur einstaka stuðningsmenn sem þeir sýndu og sönnuðu á dögunum.

Hertar sóttvarnaraðgerðir hafa komið niður á liðum eins og Quick Boys þar sem leikmennirnir eru bundnir í vinnu og geta því bara æft fyrir eða eftir vinnu.

Forsætisráðherra setti reglur um útgöngubann eftir átta á kvöldin í síðasta mánuði og það gerði Quick Boys liðinu ómögulegt að æfa á kvöldin.

Leikmenn höfðu ekki tíma til að koma sér úr vinnu og ná almennilegri æfingu áður en þeir þurftu að koma sér heim.

Þjálfarinn dó ekki ráðalaus og fór að æfa eldsnemma á morgnanna. Útgöngubannið fellur úr gildi klukkan fimm um morguninn. Leikmenn liðsins vakna því fyrir allar aldir og æfa áður en þeir mæta í vinnuna. Hvað gera menn ekki fyrir fótboltann?

Stuðningsmenn liðsins vildu líka heiðra sína menn fyrir dugnaðinn og fórnfýsina. Þeir voru því mættir á æfingasvæðið klukkan fimm um morguninn og tóku á móti nývöknuðum leikmönnum sínum með flugeldum, blysum og látum.

Quick Boys birti myndband af móttökunum á samfélagsmiðla sína sem má sjá hér fyrir ofan. Eftir þessa sýningu má búast við að fylgjendum og stuðningsmönnum félagsins gæti fjölgað á næstunni.

Þeir vöktu mikla athygli fyrir framtakið en ekki hefur þó heyrst af viðbrögðum nágrannanna sem vöknuðu upp við hálfgert Gamlárskvöld í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×