Fótbolti

Þýsku meistararnir juku forskot sitt á toppnum í fimm marka leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bayern München er nú með fjögurra stiga forskot á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.
Bayern München er nú með fjögurra stiga forskot á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Joosep Martinson/Getty Images

Toppslagur þýsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta bauð upp á fimm mörk og eitt rautt spjald, en Bayern München vann mikilvægan 2-3 útisigur gegn Borussia Dortmund í kvöld.

Julian Brandt kom heimamönnum í Dortmund yfir strax á fimmtu mínútu eftir stoðsendingu frá Jude Bellingham, en Robert Lewandowski jafnaði metin fyrir gestina fjórum mínútum síðar.

Það var svo Kingsley Coman sem sá til þess að gestirnir frá München fóru með 1-2 forystu inn í hálfleikinn.

Erling Braut Haaland jafnaði metin fyrir Dortmund þegar seinni hálfleikur var ekki nema þriggja mínútna gamall eftir stoðsendingu frá Jude Bellingham.

Marco Rose, þjálfari Dortmund, var eitthvað ósáttur við dómara leiksins og fékk að líta gula spjaldið á 56. mínútu, en það átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka handlék Mats Hummels knöttinn innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Robert Lewandowski fór á punktinn og kom gestunum yfir á nýjan leik.

Í kjölfarið á því fékk Marco Rose að líta sitt annað gula spjald eftir mikið tuð í dómurum leiksins, og þar með rautt. 

Niðurstaðaðan varð því 2-3 sigur Bayern, en liðið er nú með fjögurra stiga forskot á toppnum. Bayern er með 34 stig eftir 14 leiki, en í öðru sæti situr Borussia Dortmund með 30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×