Félagið Konur í orkumálum gefur út skýrslu um stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi á tveggja ára fresti og kom fyrsta skýrslan út árið 2017. Þriðja skýrslan kom út í dag og var hún unnin af EY. Harpa Þórunn Pétursdóttir, formaður Kvenna í orkumálum, segir nýjustu skýrsluna mjög jákvæða.
„Við sjáum breytingar á hlutföllum sem eru að færast í rétta átt sem er gríðarlega jákvætt og mikið fagnaðarefni. Við erum að sjá til dæmis að hlutfall kvenkyns stjórnarformanna er að fara úr 25 prósent í 58 prósent á aðeins fjórum árum,“ segir Harpa.
Þá er jafnframt aukning í fjölda kvenkyns framkvæmdastjóra frá því í síðustu skýrslu og er hlutfall kvenna nú 46 prósent, sem er tíu prósent aukning frá því fyrir tveimur árum.
Hlutfall kvenkyns forstjóra lækkar þó milli ára og er nú aðeins átta prósent. Aðeins ein kona er forstjóri þeirra tólf fyrirtækja sem skýrslan tók fyrir, en þær voru tvær í síðustu skýrslu.
„Þarna eru klárlega tækifæri til þess að sækja fram og við gerum bara kröfu um að við sjáum betri tölur. Við væntum þess að við sjáum betri tölur í næstu skýrslum, varðandi forstjórastöðurnar,“ segir Harpa.
Á sama tíma fjölgar þó konum í almennum stöðugildum og er hlutfallið nú 27 prósent. Þá liggur ákvörðunarvald hjá konum í 36 prósent tilfella, samanborið við 30 prósent árið 2017.
„Þarna sjáum við bara á þessum stutta tíma sex prósent aukningu á ákvörðunarvaldi kvenna innan orkugeirans og þetta er einmitt það sem við viljum sjá. Það mætti kannski gerast hraðar en við erum samt sem áður mjög ánægð með þessa niðurstöðu,“ segir Harpa.
Harpa bindur vonir við að næsta skýrsla sýni fram á enn betri stöðu kvenna innan orkugeirans á Íslandi.
„Það væri frábært ef við gætum sagt það að eftir tvö ár værum við komin yfir 40 prósent markið, það er að segja farin að nálgast 50/50 hlutfall, það er auðvitað sú staða sem við viljum vera í,“ segir Harpa.