Samtals fengust 107 milljónir króna upp í lýstar kröfur upp á 1,1 milljarð króna. 87 milljónir fengust upp í veðkröfur vegna Arctic Shopping og 20 milljónir upp í veðkröfur og sértökukröfur hjá Geysi Shops. Ekkert fékkst greitt upp í forgangskröfur eða almennar og eftirstæðar kröfur.
Þetta staðfestir Torfi Ragnar Sigurðsson skiptastjóri í samtali við Vísi en Viðskiptablaðið greindi fyrst frá. Skiptum er ekki lokið í fasteignafélaginu Giljastígur ehf. eða móðurfélaginu EJ eignarhaldsfélag ehf.
Riðaði til falls
Öllum verslunum Geysis var lokað í febrúar og voru verslunarfélögin tvö tekin til gjaldþrotaskipta 1. mars. Geysir Shops rak verslun Geysis í Haukadal en Arctic Shopping verslanir Geysis í Kringlunni, á Skólavörðustíg og Akureyri, Jólahúsið á Hafnarstræti, Fjallräven á Laugavegi og minjagripaverslanir undir merkjum Lundans, Óðins og Thors í miðbæ Reykjavíkur.
Töluverðar eignir voru í þrotabúunum, þar á meðal vörulager, innréttingar verslana og lausafé. Hótel Geysir festi kaup á vörubirgðum verslananna og endurvakti upprunalegu Geysisverslunina í húsnæði hótelsins.

Elín Svafa Thoroddsen, einn eigandi Hótel Geysis, sagði í samtali við Vísi í apríl að fjölskyldan hyggist ekki opna fleiri verslanir undir Geysisnafninu heldur einbeita sér að Haukadalnum.
Eftir að verslunarveldið leið undir lok í byrjun árs opnaði athafnakonan Rakel Þórhallsdóttir útivistarverslunina Mt. Heklu við Skólavörðustíg 16 og í Hafnarstræti á Akureyri. Bæði verslunarrýmin hýstu áður verslanir Geysis.
Rakel rak áður verslun undir sama nafni í Skólavörðustíg 12 sem vék síðar fyrir Geysir Heima. Þá var Rakel gjarnan nefnd í sömu andrá og eiginmaður hennar Jóhann Guðlaugsson, eigandi Geysis verslananna. Rakel tók við Fjallräven-umboðinu frá Arctic Shopping í vor og keypti tengdar vörur af Hótel Geysi sem tilheyrðu áður þrotabúinu.
Elín Svafa, einn eiganda Hótels Geysis, sagði í apríl að vörur yrðu áfram framleiddar undir merkjum Geysis. Þó væri ólíklegt að nýir eigendur muni halda úti jafn umfangsmikilli fatalínu. Einnig væri til skoðunar að hefja þróun snyrtivörulínu.
„Við erum með hótelið og veitingastaði svo verslunin styður við alla þá starfsemi sem er hérna,“ sagði Elín en fjölskyldan átti áður verslunarhúsnæðið í Haukadalnum og vörumerkið Geysir sem var leigt áfram til verslunarkeðjunnar.
Vísir fjallaði ítarlega um ris og fall verslunarveldisins í febrúar.