Erlent

Danir vilja leigja þrjú hundruð fangelsis­pláss í Kósovó

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur. EPA

Dönsk stjórnvöld ætla sér að taka upp viðræður við stjórnvöld í Kósovó um leigu á alls þrjú hundruð fangelsisplássum í Kósovó. Hugmyndin er liður í áætlun dönsku stjórnarinnar að tryggja þúsund ný fangelsispláss.

DR segir frá því að auk ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins standi Danski þjóðarflokkurinn, Sósíalíski þjóðarflokkurinn (SF) og Íhaldsflokkurinn að baki tillögunni.

„Það stefndi í að okkur myndi vanta um þúsund fangelsispláss árið 2025. Ég get stoltur greint frá því að með samkomulaginu munum við sameiginlega geta brugðist við stöðunni,“ sagði dómsmálaráðherrann Nick Hækkerup eftir að samkomulagið var í höfn.

Hækkerup segir samkomulag snúa að leigu á fangelsisplássum í Kósovó sem nýtt yrðu fyrir fanga frá þriðju löndum sem hafi verið vísað úr landi. Þá standi einnig til að koma upp fleiri fangelsisplássum á danskri grundu.

Samkvæmt samkomulaginu verður um 55 milljörðum króna varið til þessara ráðstafana árin 2022 til 2025.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×