Innherji

Arion banki hækkar arðsemismarkmið sitt upp í 13 prósent

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Benedikt Gíslason, bankastjóri.
Benedikt Gíslason, bankastjóri.

Arion banki hefur hækkað arðsemismarkmið sitt úr 10 prósentum upp í 13 prósent en bankinn greindi frá uppfærðum fjárhagslegum markmiðum í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Arðsemi Arion banka var um 17 prósent á þriðja ársfjórðungi og ríflega 16,3 prósent á öðrum ársfjórðungi. Bankinn var því vel yfir arðsemismarkmiðinu.

Stefnir bankinn að því að rekstrartekjur sem hlutvall af áhættuvegnum eignum verði 7,3 prósent en markmið bankans var áður 6,7 prósent.

Auk þess hefur orðalaginu um lánavöxt verið breytt. Nú er markmið bankans að útlán vaxi „í takt við hagvöxt“ en áður hafði Arion banki sérstaklega tekið fram að hann áætlaði að íbúðarlánavöxtur yrði meiri en vöxtur fyrirtækjalána.

Þá hefur Arion banki sett nýtt markmið um að vöxtur tryggingaiðgjalda verði meira en 3 prósentustigum hærri en vöxtur innlends tryggingamarkaðar.

Hlutabréf Arion banka hafa hækkað um 1,9 prósent í tæplega 400 milljóna króna viðskiptum í dag.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×