Fótbolti

Kaupir félagið sem kom honum á kortið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ronaldo.
Ronaldo. vísir/Getty

Hinn brasilíski Ronaldo er orðinn eigandi brasilíska B-deildarliðsins Cruzeiro, félagsins sem kom honum á kortið fyrir 28 árum síðan.

Ronaldo sló í gegn með liðinu tímabilið 1993/1994 þar sem hann skoraði 44 mörk í 47 leikjum og var í kjölfarið keyptur til PSV Eindhoven sumarið 1994. Þar hófst stórkostlegur ferill brasilíska markaskorarans í Evrópu og er hann af mörgum talinn besti framherji knattspyrnusögunnar.

Þrátt fyrir að þrálát meiðsli hafi gert honum erfitt um vik raðaði Ronaldo inn mörkum fyrir PSV, Inter Milan, Barcelona, Real Madrid og AC Milan áður en hann hélt aftur heim til Brasilíu þar sem hann lauk leikmannaferlinum með Corinthians í heimalandinu.

Eftir að ferlinum lauk hefur Ronaldo látið til sín taka í viðskiptum og í dag tilkynnti hann um að hann væri orðinn meirihluta eigandi Cruzeiro en hann á 90% hlut í félaginu.

Fyrir á hinn 45 ára gamli Ronaldo 82% hlut í spænska B-deildarliðinu Real Valladolid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×