Janus Daði Smárason og félagar hans í Göppingen tóku á móti Viggó Kristjánssyni og félögum í Stuttgart. Heimamenn í Göppingen tóku forystuna snemma og náðu mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik. Liðið hélt forystunni út hálfleikinn, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 19-13, Göppingen í vil.
Gestirnir frá Stuttgart minnkuðu muninn niður í tvö mörk strax í upphafi síðari hálfleiks og munurinn var so kominn niður í eitt mark þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka. Viggó og félagar náðu svo loks að jafna þegar um sjö mínútur lifðu leiks.
Heimamenn í Göppingen náðu þriggja marka forskoti á ný, en gestirnir gáfust ekki upp og jöfnuðu aftur þegar ein og hálf mínúta var eftir. Viggó og félagar fóru þá illa að ráði sínu og niðurstaðan varð tveggja marka sigur Göppingen, 34-32.
Sigurinn lyfti Göppingen upp að hlið Wetzlar í fimmta sæti deildarinnar með 21 stig eftir 18 leiki, en Wetzlar hefur leikið einum leik minna. Stuttgart situr hins vegar í 16. sæti deildarinnar með níu stig, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.
Janus Daði skoraði sjö mörk fyrir Göppingen, en í liði Stuttgart var Viggó með fimm.
60' | Was ein Krimi! Wir gewinnen das Derby mit 34:32 🙌 #FAGTVB #zamma
— FRISCH AUF! Göppingen (@FRISCHAUFGP) December 26, 2021
Þá fór Íslendingalið Gummersbach undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar í heimsókn til Coburg í þýsku B-deildinni á sama tíma. Gummersbach er án Hákons Daða Styrmissonar sem sleit krossband á dögunum, en það kom ekki í veg fyrir góðan tveggja marka sigur liðsins, 35-37.
Óðinn Þór Ríkharðsson var atkvæðamikill í liði Gummersbach með sex mörk og Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö.
Gummersbach er nú með fimm stiga forskot á toppi þýsku B-deildarinnar. Liðið er með 30 stig eftir 19 leiki, 16 stigum meira en Coburg sem situr í 12. sæti deildarinnar.