Fimleikakonan Kolbrún Þöll Þorradóttir varð í 2. sæti og kraftlyftingakonan Kristín Þórhallsdóttir í 3. sæti en alls fengu 25 íþróttamenn atkvæði í kjörinu í ár.
Ómar Ingi, sem er á leið á EM í næsta mánuði, er 24 ára gamall og leikur með efsta liði bestu landsdeildar Evrópu í handbolta, þeirrar þýsku.
Hann varð markakóngur efstu deildar Þýskalands í vor og þá var hann jafnframt valinn í lið ársins í Þýskalandi. Ómar hefur áfram verið afar mikilvægur fyrir Magdeburg í haust og er meðal markahæstu og stoðsendingahæstu manna þýsku deildarinnar en Magdeburg trónir sem stendur á toppnum.
Þá vann Ómar Evrópudeildina með Magdeburg sem einnig varð heimsmeistari félagsliða eftir sigur á Barcelona í úrslitaleik.

Íþróttamaður ársins 2021 – stigin
- Ómar Ingi Magnússon, handbolti 445
- Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikar 387
- Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingar 194
- Martin Hermannsson, körfubolti 150
- Aron Pálmarsson, handbolti 143
- Júlían J. K. Jóhannsson, kraftlyftingar 122
- Sveindís Jane Jónsdóttir, fótbolti 114
- Bjarki Már Elísson, handbolti 109
- Rut Arnfjörð Jónsdóttir, handbolti 93
- Kári Árnason, fótbolti 85
- Elvar Már Friðriksson, körfubolti 48
- Aldís Kara Bergsdóttir, skautar 40
- Hlynur Andrésson, frjálsíþróttir 32
- Ásta Kristinsdóttir, fimleikar 31
- Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti 26
- Helgi Laxdal Aðalgeirsson, fimleikar 24
- Haraldur Franklín Magnús, golf 22
- Guðrún Brá Björgvinsdóttir, golf 13
- Erna Sóley Gunnarsdóttir, frjálsíþróttir 10
- Már Gunnarsson, íþróttir fatlaðra 8
- Helena Sverrisdóttir, körfubolti 7
- Alfons Sampsted, fótbolti 6
- Baldvin Þór Magnússon , frjálsíþróttir 6
- Anton Sveinn McKee, sund 1
- Róbert Ísak Jónsson, íþróttir fatlaðra 1
Í 2. sæti í kjörinu varð Kolbrún Þöll Þorradóttir sem gegndi lykilhlutverki í Evrópumeistaraliði Íslands í hópfimleikum í Portúgal fyrir mánuði síðan.
Kolbrún Þöll var valin í úrvalslið EM, í fjórða sinn á ferlinum. Í þetta sinn var Kolbrún valin í úrvalsliðið vegna árangurs á trampólíni en þar framkvæmdi hún eitt erfiðasta stökk mótsins. Þá varð hún einnig Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni.
Sex fengu atkvæði í efsta sæti
Kraftlyftingakonan Kristín Þórhallsdóttir varð í 3. sæti. Hún skaust fram á sjónarsviðið í ár og setti Evrópumet og varð Evrópumeistari í -84 kílóa flokki í klassískum kraftlyftingum. Kristín lyfti 560 kílóum samanlagt, sem er nýtt Evrópumet. Hún er fyrsti Íslendingurinn til að fagna Evrópumeistaratitli í samanlögðu. Þá vann hún brons á HM í klassískum kraftlyftingum í október.
Alls tóku 29 íþróttafréttamenn þátt í kjörinu í ár og raðaði hver um sig íþróttafólki á sinn lista í sæti 1-10. Fyrir 1. sæti fengust 20 stig, fyrir 2. sæti fengust 15 og fyrir 3. sæti 10. Fjórða sætið gaf 7 stig, 5. sætið 6 stig og svo koll af kolli.
Ómar Ingi fékk því 445 af 580 stigum mögulegum en alls fengu sex íþróttamenn atkvæði í efsta sæti í ár.