Í tilkynningu frá Alþingi segir að allsherjar- og menntamálanefnd skipi undirnefnd til að fara yfir umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar með lögum. Útlendingastofnun eigi að forvinna gögnin og afhenda undirnefndinni að þeirri vinnu lokinni. Gögnin frá Útlendingastofnun hafa enn ekki borist Alþingi.
Allsherjar- og menntamálanefnd hefur farið fram á að umsóknir verði afhentar undirnefndinni ásamt fylgigögnum ekki síðar en þann 1. febrúar 2022. Í kjölfarið verði svo lagt fram sérstakt frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar.
Flestar umsóknir um ríkisborgararétt eru afgreiddar með hefðbundinni stjórnvaldsákvörðun Útlendingastofnunar og án aðkomu Alþingis. Veiting ríkisborgararéttar með sérstökum lögum Alþingis getur þannig farið fram án þess að almenn lagaskilyrði, til dæmis um búsetutíma umsækjenda hér á landi, séu uppfyllt.
Í frétt Fréttablaðsins segir að unnið sé að breyttu verklagi um veitingu ríkisborgararéttar til að gæta jafnræðis. Aðkoma Alþingis að veitingu ríkisborgararéttar hefur hlotið gagnrýni, meðal annars frá umboðsmanni Alþingis, þar sem talið er að þær umsóknir fái almennt forgang fram yfir aðrar almennar umsóknir sama efnis.