Innlent

Að­stoðuðu fasta öku­menn á lokaðri heiðinni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Slysavarnafélagið Landsbjörg stendur iðulega í ströngu þegar bætir í vind hér á landi.
Slysavarnafélagið Landsbjörg stendur iðulega í ströngu þegar bætir í vind hér á landi. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir víða um land hafa verið kallaðar út í dag vegna veðurs. Meðal annars hefur þurft að tryggja lausa muni og þakplötur og aðstoða ökumenn bíla sem sátu fastir á Öxnadalsheiði.

„Dagurinn byrjaði rólega, þannig séð. Það voru stöku útköll á nokkrum stöðum á landinu, ekki á neinu einu sérstöku svæði. Svo núna seinni partinn fór að bera á útköllum,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við fréttastofu.

Öxnadalsheiði var lokað á áttunda tímanum í morgun en björgunarsveitarfólk á Akureyri fór engu að síður þangað nú síðdegis að aðstoða ökumenn nokkurra bíla sem sátu fastir.

Tilkynningum um fok fjölgað eftir deginum

Nú síðdegis voru björgunarsveitir á Suðurnesjum, Kjalarnesi og á Hellu kallaðar út.

„Á Suðurnesjum voru farnar að fjúka einhverjar þakplötur og stór ruslagámur. Menn eru að lenda í vandræðum á Suðurlandi með það að ágætis hluti af þaki á sumarhúsi var að fjúka af þar. Þannig að það er farið að bera tilkynningum um fok núna seinni partinn.“

Gul veðurviðvörun er nú í gildi á landinu öllu, nema á Suðausturlandi, þar sem viðvörunin er appelsínugul. Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands má ætla að veðrinu sloti um landið allt eftir því sem líður á kvöldið og inn í nóttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×