Innherji

Sjóðir Akta bæta enn við sig í Sýn og fara með yfir 7 prósenta hlut

Hörður Ægisson skrifar
Hlutabréfaverð Sýnar, sem rekur meðal annars fjölmiðlana Vísir, Stöð 2 og Bylgjuna, hefur hækkað um liðlega 53 prósent á síðustu þremur mánuðum.
Hlutabréfaverð Sýnar, sem rekur meðal annars fjölmiðlana Vísir, Stöð 2 og Bylgjuna, hefur hækkað um liðlega 53 prósent á síðustu þremur mánuðum.

Fjárfestingasjóðir í stýringu Akta hafa á innan við þremur mánuðum keypt samanlagt um 7,3 prósenta hlut í fjarskiptafyrirtækinu Sýn og eru nú á meðal allra stærstu hlutahafa félagsins.

Þrír sjóðir Akta – hlutabréfasjóðurinn Stokkur ásamt vogunarsjóðunum HL1 og HS1 – bættu við sig um 50 milljónum hluta að nafnverði á síðasta mánuði ársins 2021, eða sem jafngildir tæplega 1,8 prósenta eignarhlut. Þetta sýnir nýr listi yfir tuttugu stærstu hluthafa Sýnar í lok desembermánaðar en áætla má að sjóðirnir hafi keypt bréfin fyrir meira en 300 milljónir króna.

Eftir kaupin eiga sjóðir Akta samanlagt 21,6 milljónir hluta að nafnverði í Sýn sem gerir þá að sjötta stærsta hluthafa félagsins. Hlutabréfaverð Sýnar stóð í 66 krónum á hlut við lokun markaða í dag og markaðsvirði bréfa Akta stendur því í liðlega 1.420 milljónum króna.

Hlutabréfaverð Sýnar hefur hækkað um meira en 53 prósent á síðustu þremur mánuðum og er markaðsvirði fyrirtækisins nú nálægt 20 milljarðar. Undir lok síðasta árs tilkynnti félagið að sölu á óvirkum farsímainnviðum til bandaríska sjóðsins DigitalBridge væri lokið. Kaupverðið nam 6,94 milljörðum króna og nemur söluhagnaður Sýnar vegna viðskiptanna tæplega 6,5 milljörðum.

Akta hóf að kaupa í Sýn í október á liðnu ári, þegar gengi bréfa fjarskiptafyrirtækisins var talsvert undir 50 krónum á hlut, en í lok nóvember flögguðu sjóðir félagsins því að þeir væru komnir með rétt yfir fimm prósenta hlut.

Á sama tíma og sjóðir í stýringu Akta hafa verið að byggja upp stöðu í Sýn hafa meðal annars lífeyrissjóðirnir Gildi, LSR, Birta og Stapi verið að minnka nokkuð við eignarhlut sinn í félaginu. Gildi er hins vegar eftir sem áður stærsti hluthafi Sýnar með um 11,3 prósenta hlut en þar á eftir kemur Lífeyrissjóður verslunarmanna og eignarhaldsfélagið Ursus sem er í eigu Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar.

Tekjur Sýnar á þriðja ársfjórðungi 2021 námu 5.533 milljónum króna og jukust um rúmlega 470 milljónir frá sama tímabili árið áður. Þá jókst hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) um meira en 18 prósent á milli ára og var tæplega 1.900 milljónir á þriðja ársfjórðungi síðasta árs.

Sýn var á meðal hástökkvara síðasta árs í Kauphöllinni en gengi bréfa félagsins hækkuðu um nærri 68 prósent á árinu 2021.

Vísir er í eigu Sýnar hf.


Tengdar fréttir

Vogunarsjóðir Akta skilað nærri 200 prósenta ávöxtun á einu ári

Tveir vogunarsjóðir í rekstri Akta, sem hafa fjárfestingarheimildir til að gíra skort- eða gnóttstöður sínar í skuldabréfum og hlutabréfum margfalt, hafa skilað sjóðsfélögum sínum nálægt 200 prósenta ávöxtun á undanförnum tólf mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×