Þetta segir Birna Ósk Einarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá Icelandair, sem í vikunni mun taka við nýju starfi sem framkvæmdastjóri markaðssviðs APM Terminals, dótturfélags skipafélagsins Maersk í Haag í Hollandi.
Birna Ósk er viðmælandi nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála, þar sem hún fjallar meðal annars um þann storm sem Icelandair hefur farið í gegnum síðastliðin tvö ár vegna heimsfaraldursins, framtíð íslenskrar ferðaþjónustu, reynsluna sem hún hefur öðlast sem stjórnandi í atvinnulífinu í störfum sínum hjá Icelandair og þar áður hjá Landsvirkjun og Símanum og margt fleira.
Í þættinum er vikið að stöðu atvinnulífsins og mögulegum skort á mannauði hér á landi, sem margir stjórnendur fyrirtækja hafa gefið í skyn að sé vandamál sem bregðast þurfi við.
„Ég held að það sé allavega smá gat núna. Við erum auðvitað að fá út úr háskólunum mikið af mjög spennandi fólki, sem er ekki komið með starfsreynslu en getur orðið alveg rosalega sterkt á næstu árum,“ segir Birna Ósk þegar hún er spurð um málið.
Icelandair leituðu út fyrir landssteinana
„Svo erum við með mjög reynt fólk, reynda stjórnendur og sérfræðinga, en mér hefur stundum fundist eins og það vanti fólk með þriggja til fimm ára reynslu og þá reynslu úr ákveðnum atvinnugreinum til þess að koma inn í fyrirtækin og hjálpa til við að þjálfa allt þetta spennandi fólk sem er að koma út úr háskólunum. Við fundum það svolítið hjá Icelandair þannig að við vorum farin að leita út fyrir landssteinana, sérstaklega í sérfræðistörf sem kröfðust ákveðinnar menntunar og reynslu – og þá ekki síður til þess að þjálfa okkar fólk og þau sem eru að koma út úr háskólunum og voru að hefja störf hjá okkur eftir nám.“
Við fundum það svolítið hjá Icelandair þannig að við vorum farin að leita út fyrir landssteinana, sérstaklega í sérfræðistörf sem kröfðust ákveðinnar menntunar og reynslu – og þá ekki síður til þess að þjálfa okkar fólk og þau sem eru að koma út úr háskólunum og voru að hefja störf hjá okkur eftir nám.“
Hún segir svipaða sögu af þeim tíma sem hún starfaði framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs hjá Landsvirkjun.
„Þar snerist starfið mikið út á það að fá erlend fyrirtæki til að hefja rekstur á Íslandi, svosem gagnaver og önnur erlend fyrirtæki. Þetta var eitthvað sem var mjög flókið að eiga samtal við þau um. Í langflestum af þessum „nýju“ geirum, svo sem gagnaverum og tölvufyrirtækjum, þá sáu þau ekki að þau gætu fengið fólkið sem þau þyrftu með rekstrinum á Íslandi. Það er auðvitað hindrun fyrir þau, að þurfa í framhaldinu að flytja inn fólk til þess að vinna í fyrirtækinu.“
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.