Fótbolti

Borussia Mönchengladbach batt enda á sigurgöngu þýsku meistaranna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Borussia Mönchengladbach vann óvæntan sigur gegn þýsku meisturunum í kvöld.
Borussia Mönchengladbach vann óvæntan sigur gegn þýsku meisturunum í kvöld. Sebastian Widmann/Getty Images

Þýskalandsmeistarar Bayern München töpuðu óvænt 2-1 er liðið tók á móti Borussia Mönchengladbach í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Bayern hafði unnið seinustu fimm deildarleiki sína, en á sama tíma hafði Mönchengladbach ekki unnið í seinustu fimm og þar af tapað fjórum.

Útlitið var gott fyrir þýsku meistarana þegar Robert Lewandowski kom Bayern yfir á 18. mínútu eftir stoðsendingu frá Thoma Müller, en Florian Neuhaus jafnaði metin fyrir gestina tæpum tíu mínútum síðar.

Stefan Lainer kom Mönchengladbach svo yfir á 31. mínút eftir stoðsendingu frá Luca Netz og staðan var því 2-1 í hálfleik, gestunum í vil.

Þrátt fyrir mikla yfirbuði Bayern í síðari hálfleik tókst .eim ekki að jafna metin og niðurstaðan varð 2-1 útisigur Mönchengladbach. Bayern trónir þó enn á toppi þýsku deildarinnar með 43 stig, níu stigum meira en Borussia Dortmund sem situr í öðru sæti en hefur leikið einum leik minna.

Borussia Mönchengladbach situr hins vegar í 11. sæti deildarinnar eftir leik kvöldsins. Liðið er með 22 stig, en sigurinn í kvöld lyfti liðinu upp um þrjú sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×