Fótbolti

Mögnuð endurkoma Dortmund

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Mahmoud Dahoud skoraði sigurmarkið
Mahmoud Dahoud skoraði sigurmarkið EPA-EFE/HASAN BRATIC

Borussia Dortmund vann ótrúlegan sigur á Eintracht Frankfurt í þýsku Bundesligunni í kvöld. Liðið lenti 2-0 undir en vann leikinn á ótrúlegan hátt 2-3.

Dortmund hefur verið að misstíga sig undanfarnar vikur og Bayern Munchen eru nokkuð öruggir á toppnum. Þeir gulu þurftu þó að vinna Eintrach Frankfurt í kvöld til þess að halda pressunni á risunum frá Bæjaralandi.

Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn betur og á 15. mínútu leiksins skom fyrsta markið. Rafael Santos Borre skoraði þá eftir fyrirgjöf Filip Kostic frá vinstri. Virkilega vel gert og Dortmund í vandræðum strax í upphafi.

Þetta var þó bara byrjunin á vandræðum þeirra gulu. Santos Borre skoraði aftur á 24. mínútu þegar hann var fyrstur að átta sig þegar að Gregor Kobel, markvörður gestanna, varði skot út í teiginn. 2-0 í hálfleik.

Thorgen Hazard minnkaði muninn á 71. mínútu þegar hann slapp einn inn fyrir eftir sendingu frá Erling Haaland og gaf sínum mönnum von. Hún virtist þó vera að fjara út alveg þangað til Jude Bellingham skoraði á 87. mínútu eftir fyrirgjöf Thomas Meunier.

Endurkoman varð svo fullkomin tveimur mínútum síðar þegar Mahmoud Dahoud skoraði sigurmark leiksins fyrir Dortmund með fallegu skoti við vítateigslínuna. 2-3 voru lokatölur leiksins.

Dortmund er í öðru sæti deildarinnar með 37 stig, sex stigum á eftir Bayern Munchen. Frankfurt er í sjöunda sætinu með 27 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×