Sport

„Morgunljóst að íþróttahreyfingin þarf á enn frekari stuðningi að halda“

Atli Arason skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, hefur kallað eftir stuðningi stjórnvalda við íþróttafélög á Íslandi. Rætt hefur verið um það síðustu daga að hinir ýmsu iðnaðir og atvinnugreinar þurfa á stuðningi að halda frá hinu opinbera vegna takmarkanna en Hannesi finnst eins og íþróttafélög hafi gleymst í þeirri umræðu.

„Mér finnst eins og forsætisráðherra hafi gleymt okkur og sérstaklega núna í gær þegar það var verið að ræða hvað væri fram undan, þá var ekki minnst á íþróttahreyfinguna og mér finnst það vera frekar slappt,“ sagði Hannes í viðtali á Ríkisútvarpinu.

Tekjutap íþróttafélaganna hefur verið gífurlegt í sóttvarnarráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og ljóst er að tekjutapið verður meira í næstu viku þegar algjört áhorfenda bann tekur gildi. Fram að þessu hefur verið leyfi fyrir 200 manns í hólfi með neikvæðu hraðprófi.

Fjarfundur stjórnar KKÍ með formönnum allra íþróttafélaga innan sambandsins var haldin í hádeginu í gær en þar kom fram vilji til að halda tímabilinu áfram þrátt fyrir takmarkanir. Hannes kallar þó eftir fjárhagsstuðningi hins opinbera við íþróttafélögin.

„Rétt fyrir áramótin þá fundaði ég meðal annars með ráðherra íþróttamála og gerði honum grein fyrir stöðunni. Það var alveg ljóst að íþróttahreyfingin þarf mun meiri stuðning en ríkisstjórnin hefur gert vel og stutt við félögin fyrr í faraldrinum. Núna er það bara þannig að það eru búnar að vera áhorfenda takmarkanir í allan vetur og rauninni undanfarin tvö ár.“

Ekki er sala á aðgöngumiðum í hallirnar það eina sem er að hrjá íþróttafélögin því fyrirtækin í landinu eru einnig að halda að sér höndum vegna tekjutaps þeirra.

„Fyrirtækin koma líka minna að stuðningi við félögin. Það er alveg morgunljóst að íþróttahreyfingin þarf á enn frekari stuðningi að halda,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×