Erlent

Kona deyr eftir að hafa verið hrint fyrir lest í New York

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stór vandamál blasa við neðanjarðarlestakerfinu í New York. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Stór vandamál blasa við neðanjarðarlestakerfinu í New York. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. epa/Justin Lane

Fertug kona lést í New York í gær þegar maður gekk upp að henni þar sem hún beið á neðanjarðarlestarstöðinni í Times Square og hrinti henni í veg fyrir lest. 

Lögregla segir að svo virðist sem maðurinn hafi valið fórnarlamb sitt af handahófi en vitað er að hann hefur þjáðst af geðrænum vandamálum.

New York Times segir atvikið til marks um nokkur mest aðkallandi vandamál borgarinnar; aukna tíðni ofbeldisglæpa, meðal annars í neðanjarðarlestakerfinu, gríðarlegan fjölda heimilislausra sem hefst við þar og vanfjármögnun kerfisins.

Aðeins níu dagar eru liðnir frá því að nýr borgarstjóri New York, Eric Adams, sem er fyrrverandi lögreglustjóri, tilkynnti um nýja áætlun sem miðar að því að stórauka sýnileika lögreglu í neðanjarðarlestakerfinu og auka sálfræðiaðstoð til handa heimilislausum.

Atvikið í gær var annað ofbeldisfulla dauðsfallið sem á sér stað í kerfinu á tveimur vikum. Adams segir þau og önnur þeim lík gera það að verkum að fólk veigrar sé við því að nota lestarnar. 

Konan sem lést hét Michelle Alyssa Go og var af asískum uppruna en lögregla segir ekkert benda til þess að sú staðreynd hafi haft nokkuð með það að gera að maðurinn réðist á hana. 

Árásarmaðurinn, Simon Martial, 61 árs, fór sjálfur um borð í lest í kjölfar glæpsins og tilkynnti síðan lögreglumönnum á lestarstöðinni við Canal Street að hann hefði hrint konu í veg fyrir lest. Seinna kom í ljós að hann hafði skömmu áður ógnað annarri konu, sem óttaðist að hann hygðist hrinda sér á lestarteinana.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá New York Times.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×