Erlent

Rabb­ín­i kast­að­i stól í gísl­a­tök­u­mann­inn og gísl­arn­ir flúð­u

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjórum gíslum var haldið í bænahúsinu í um tíu klukkustundir.
Fjórum gíslum var haldið í bænahúsinu í um tíu klukkustundir. AP/Brandon Wade

Charlie Cytron-Walker, rabbíni, kastaði stól í gíslatökumann sem hélt honum og þremur öðrum í gíslingu í á laugardagskvöld. Við það tókst honum og tveimur öðrum að flýja undan manninum sem var vopnaður en þá hafði gíslatakan staðið yfir í um tíu klukkustundir í bænahúsi gyðinga í Colleyville í Texas.

Eftir að þeir flúðu réðust lögregluþjónar til atlögu og skutu hinn 44 ára gamla Malik Faisal Akram til bana. Hann hefði sleppt einum gísl úr haldi nokkrum klukkustundum áður.

Alríkislögregla Bandaríkjanna segir gíslatökuna vera hryðjuverk en Akram krafðist þess að Aafia Siddiqui yrði sleppt úr haldi. Hún er frá Pakistan og var dæmd fyrir tengsli við al-Qaida og fyrir að ætla að myrða bandaríska hermenn í Afganistan.

Í viðtali við CBS Mornings sagði Cytron-Walker að hann hefði hleypt Akram inn í bænahúsið því hann hefði virst þurfa á aðstoð að halda. Rabbíninn sagði Akram ekki hafa ógnað neinum eða hagað sér grunsamlega, fyrr en hann tók upp byssu.

Þá hefur AP fréttaveitan eftir Cytron-Walker að undir lokin hafi Akram verið orðinn mjög órólegur og ógnandi. Þá hafi rabbíninn kastað stólnum í hann og þau þrjú sem var þá haldið í gíslingu flúðu.

Myndbönd sýndu hvernig þau hlupu út og að Akram kom á eftir þeim. Hann stoppaði þó í hurðinni, lokaði henni og farið aftur inn í bænahúsið. Skömmu síðar heyrðust skothljóð og sprenging.

Akram er frá Bretlandi og hafði nýverið ferðast til Bandaríkjanna sem ferðamaður. Talið er að hann hafi keypt skammbyssuna sem hann var með á einkasölu, samkvæmt heimildum AP. Ekki er vitað af hverju hann vladi þetta bænahús en fangelsið sem Siddiqui afplánar dóm sinn í er þarna nærri.

Akram var með síma sem hann notaði til að tala við aðra en samningamenn lögreglunnar á meðan á gíslatökunni stóð. Í kjölfar árásarinnar hefur lögreglan í Bretlandi handtekið tvo táninga vegna gíslatökunnar.


Tengdar fréttir

Gíslarnir lausir og byssumaðurinn látinn

Bandaríska alríkislögreglan réðist inn í bænahús gyðinga Colleyville í nótt, tíu tímum eftir að maður tók fjóra einstaklinga þar í gíslingu. Byssumaðurinn er látinn en lögregla hefur ekki viljað gefa upp hvernig dauða hans bar að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×