Bíó og sjónvarp

Hreiður eftir Hlyn Pálmason valin á Berlinale

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að myndinni Hreiður. Ljósmyndina af leikstjóranum tók Hildur Ýr Ómarsdóttir en til hægri er stilla úr myndinni.
Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að myndinni Hreiður. Ljósmyndina af leikstjóranum tók Hildur Ýr Ómarsdóttir en til hægri er stilla úr myndinni. Samsett

Stuttmyndin Hreiður eftir Hlyn Pálmason hefur verið valin í Berlinale Special hluta alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Berlín. Hátíðin fangar 72 ára afmæli sínu nú snemma í febrúar.

Hreiður var sérvalin af Carlo Chatrian listrænum stjórnanda hátíðarinnar og verður heimsfrumsýnd á sérstakri sýningu ásamt stuttmyndinni Terminal Norte eftir Lucrecia Martel.

Hreiður er saga af systkinum sem byggja saman trjákofa. Við fylgjumst með lífi þeirra og ferli í heilt ár í gegnum hamingju og þjáningu, vetur og sumar, ljós og myrkur.

Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að myndinni og framleiðendur eru Anton Máni Svansson fyrir íslenska framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures og Katrin Pors, Eva Jakobsen og Mikkel Jersin fyrir danska framleiðslufyrirtækið Snowglobe.

Fyrri verk Hlyns hafa verið heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðunum Cannes, Locarno og Toronto, og unnið til fjölda verðlauna víðsvegar um heiminn. Stuttmyndin Sjö bátar hóf ferðalag sitt í Toronto árið 2014, kvikmyndin Vetrarbræður tók þátt í aðalkeppni Locarno árið 2017, og kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur keppti í Critics' Week á Cannes árið 2019.

Fyrr í vikunni var tilkynnt að kvikmynd Guðmundar Arnar Guðmundssonar, Berdreymi, var einnig valin inn á Berlinale. Join Motion Pictures verður því með tvö íslensk verk á hátíðinni í ár. Íslensku sjónvarpsþættirnir Svörtu sandar verða einnig sýndir á hátíðinni, en þeir eru framleiddir af Glassriver fyrir Stöð 2. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.