Fótbolti

Sjáðu Kristian Nökkva skora aftur fyrir aðallið Ajax í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristian Hlynsson í þann mund að skora sitt fyrsta mark fyrir Ajax.
Kristian Hlynsson í þann mund að skora sitt fyrsta mark fyrir Ajax. Getty/Rico Brouwer-

Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn Kristian Nökkvi Hlynsson kom aftur inn á sem varamaður hjá aðalliði Ajax og skoraði þegar hann fékk aftur tækifæri í gær.

Kristian Nökkvi kom inn á sem varamaður í hálfleik í 9-0 sigri Ajax á Excelsior í þriðji umferð hollenska bikarsins.

Kristian fékk sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu í síðustu umferð bikarsins en hann skoraði þá af miklu öryggi úr vítaspyrnu í sínum fyrsta leik með aðalliðinu.

Markið í gær, sem má sjá hér fyrir neðan, kom eftir að Kristian og félagi hans, Steven Berghuis, sundurspiluðu varnarmenn Excelsior inn í þeirra eigin teig.

Kristian Nökkvi hefur þar með náð því að skora tvívegis á fyrstu 54 mínútum sínum með aðalliði Ajax.

Þó að hann hafi ekki fengið enn tækifæri í hollensku deildinni þá er strákurinn að skapa sér nafn og er farinn að banka fast á dyrnar.

Hann er fæddur í janúar 2004 og heldur upp á átján ára afmælið sitt eftir aðeins tvo daga. Það verður spennandi að fylgjast með honum fá fleiri tækifæri með hinu frábæra liði Ajax.

Hér fyrir neðan má sjá hina öruggu vítaspyrnu hans á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×