Fótbolti

Hollenska stórveldið samdi við Kristian: „Fjölskyldan er stolt af mér“

Sindri Sverrisson skrifar
Kristian Nökkvi Hlynsson skrifar undir nýja samninginn við Ajax.
Kristian Nökkvi Hlynsson skrifar undir nýja samninginn við Ajax. ajax.nl

Knattspyrnumaðurinn ungi Kristian Nökkvi Hlynsson hefur tryggt sér langtímasamning hjá hollenska stórveldinu Ajax með frammistöðu sinni í vetur.

Kristian, sem Ronald de Boer kallaði „hinn íslenska De Bruyne“, var með samning við Ajax sem gilti til ársins 2023.

Nú hefur þessi 18 ára gamli miðjumaður skrifað undir nýjan samning sem gildir til 30. júní árið 2026.

„Ég varð 18 ára á sunnudaginn og þetta er góð afmælisgjöf,“ sagði Kristian við heimasíðu Ajax.

„Ég er mjög ánægður með að geta fagnað þessu með pabba mínum [Hlyni Svan Eiríksysni]. Fjölskyldan er stolt af mér. Mér finnst líka frábært að félagið hafi trú á mér. Vonandi get ég endurgoldið traustið,“ sagði Kristian sem stefnir á að stimpla sig inn í aðallið Ajax og spila í hollensku úrvalsdeildinni, og vinna sér svo sess í íslenska A-landsliðinu.

Kristian, sem er fæddur í Danmörku, lék með yngri flokkum Breiðabliks áður en hann fór til Ajax í janúar 2020.

Hann hefur á síðustu 40 dögum spilað sína fyrstu tvo leiki fyrir aðallið Ajax, í hollenska bikarnum, og skorað í þeim báðum. Þá hefur hann leikið 21 leik fyrir varalið Ajax frá því að hann kom frá Breiðabliki.

Kristian á að baki 17 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af fjóra fyrir U21-landsliðið í undankeppni EM á síðasta ári, þar sem hann lék með bróður sínum Ágústi Eðvaldi. Hann skoraði í einum þeirra leikja, í 3-0 sigri gegn Liechtenstein.

Ajax er sigursælasta félag í sögu hollenskrar knattspyrnu, með 35 Hollandsmeistaratitla og 20 bikarmeistaratitla. Liðið er ríkjandi meistari og á toppi hollensku deildarinnar, undir stjórn Eriks ten Hag sem sagður er í sigti Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×