Handbolti

Björgvin Páll greindist aftur og Elliði kominn með veiruna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson í leiknum gegn Króatíu í gær.
Elliði Snær Viðarsson í leiknum gegn Króatíu í gær. getty/Sanjin Strukic

Björgvin Páll Gústavsson og Elliði Snær Viðarsson fengu jákvæða niðurstöðu úr hraðprófi í morgun. Þeir bíða eftir niðurstöðu PCR-prófs.

Þetta er í annað sinn sem Björgvin Páll greinist með kórónuveiruna. Hann greindist fyrst með hana á miðvikudaginn en sneri aftur úr einangrun og var í hóp í leiknum gegn Króatíu í gær.

Alls hafa ellefu leikmenn Íslands greinst með kórónuveiruna síðustu vikuna. Þetta eru þeir Björgvin Páll, Elliði, Ólafur Guðmundsson, Elvar Örn Jónsson, Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Arnar Freyr Arnarsson, Janus Daði Smárason, Daníel Þór Ingason og Vignir Stefánsson. Þá greindist sjúkraþjálfarinn Jón Birgir Guðmundsson einnig með veiruna.

Ísland hefur aðeins verið með fjórtán leikmenn á skýrslu í leikjunum þremur í milliriðli I. Í leiknum gegn Króatíu voru tveir nýliðar í hópnum og sjö af fjórtán höfðu leikið innan við tuttugu landsleiki.

Ísland mætir Svartfjallalandi í lokaleik sínum í milliriðli I klukkan 14:30 á morgun. Ekki er loku fyrir það skotið að einhverjir leikmenn gætu snúið aftur í íslenska liðið fyrir leikinn. 

Íslendingar eiga enn möguleika á að komast í undanúrslit en til að það gerist þurfa þeir að vinna Svartfellinga og treysta á að Danir vinni Frakka um kvöldið. Með sigri er Ísland öruggt með að keppa um 5. sætið á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×