Innlent

Nýr met­dagur: 1.567 greindust innan­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Aldrei hafa svo margir greinst með kórónuveiruna á einum sólarhring hér á landi og í gær.
Aldrei hafa svo margir greinst með kórónuveiruna á einum sólarhring hér á landi og í gær. Vísir/Vilhelm

1.567 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og 43 á landamærum. Aldrei hafa svo margir greinst með kórónuveiruna hér á landi og í gær, en fyrri metfjöldi var 1.558 síðastliðinn mánudag.

Frá þessu segir á síðunni covid.is. 11.593 eru nú í einangrun vegna Covid-19, en voru 11.744 í gær.

59 prósent af þeim 1.567 sem greindust innanlands í gær voru í sóttkví við greiningu og 41 prósent utan sóttkvíar.

4.865 einkennasýni voru greind í gær, 2.199 sóttkvíarsýni og 593 landamærasýni.

35 eru nú á sjúkrahúsi með Covid-19, en voru 38 í gær. Þrír eru á gjörgæslu, líkt og í gær.

Nýgengi á smiti innanlands, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 4.968, en var 4.883 í gær. Nýgengi á smiti á landamærum er nú 311, en var 327 í gær.

Alls hafa 63.188 greinst með kórónuveiruna hér á landi frá því faraldurinn hófst í lok febrúar á þarsíðasta ári. Sautján prósent íbúa hafa nú greinst með Covid-19. 46 hafa látist á Íslandi vegna COVID-19 frá upphafi faraldursins.


Tengdar fréttir

Andlát vegna Covid-19

Kona á níræðisaldri lést á legudeild Landspítalans af völdum Covid-19 í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×