Nara afplánaði dóm sinn í fangelsinu á Hólmsheiði en hún hlaut átján mánaða dóm fyrir árásina, þar af fimmtán mánuði skilorðsbundna. Hún sagðist fyrir dómi hafa verið að verja sig fyrir eiginmanni sínum, sem ítrekað hafi beitt hana ofbeldi. Nara hefur ávallt haldið því fram að um sjálfsvörn hafi verið að ræða.
Dóminum var mótmælt harðlega hér á landi en um Nara safnaði meðal annars 43 þúsund undirskriftum sér til stuðnings. Þá mótmæltu ríflega þrjátíu manns á Hólmsheiði þegar Nara hélt til afplánunar.
Nara hefur sagt frá upphafi máls að réttarkerfið hér á landi hafi brugðist. Mál hennar endurspegli brotalamir í íslensku réttarkerfi þegar kemur að málum sem snúa að heimilisofbeldi.
Í ítarlegu viðtali Guardian lýsir Nara sinni upplifun hér á landi og bendir á að níu konur hafi nú kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna niðurfellingar mála hjá lögreglu. Málin sem látin voru niður falla vörðuðu kynferðisbrot og heimilsofbeldi.
Nara segir í viðtalinu að dagarnir í fangelsinu hafi verið einmanalegir. Hún hafi málað sér til dundurs en annars ímyndað sér að hún væri einhvers staðar allt annars staðar. Nara sat inni í fangelsi í einn mánuð en fékk að afplána síðustu tvo utan fangelsis. Eftir afplánunina tók við barátta um landvistarleyfi en hún býr nú í heimalandi sínu, Ástralíu.
Hún segist nú reyna að nýta áfallið í listsköpun sína sem einhvers konar innblástur; að eitthvað gott komi úr erfiðri reynslu. Ljósið við enda ganganna geti verið dómur henni í vil hjá Mannréttindadómstólnum. Málið verður líklega tekið fyrir á þessu ári en dómstólinn samþykkti að taka málið til meðferðar í júlí í fyrra.
„Sumir dagar eru góðir og þá líður mér ótrúlega vel. En sumir dagar eru alveg hörmulegir og þá líður mér eins og það sé enginn tilgangur. Þegar mér líður þannig þá minni ég mig á það að ég mun klára þetta. Þetta mál mun taka enda,“ segir Nara við Guardian.